Miðnæturhlaup Suzuki 2024 - Úrslit

1. júlí 2024

Miðnæturhlaup Suzuki 2024 fór fram í Laugardal í kvöld. Tæplega 2500 hlauparar lögðu upp frá Engjavegi og enduðu við Þvottalaugarnar í Laugardal, en keppt var í þremur vegalengdum, hálfmaraþoni, tíu kílómetrum og fimm kílómetrum. Hlauparar létu ekki rigninguna stoppa sig enda milt veður í kvöld, sem sum myndu kalla fullkomið hlaupaveður.

KEPPENDUR FRÁ 57 LÖNDUM

Af tæplega 2500 skráðum þátttakendum voru yfir 700 hlauparar frá 57 mismunandi löndum, flestir frá Bandaríkjunum og svo frá Bretlandi og Þýskalandi. 1399 konur, voru skráðar í hlaupið, 1022 karlar, 5 kvár og 4 í ókyngreindum flokki. 

Arnar Pétursson var fljótastur allra karla í hálfmaraþoninu, en hann hljóp á tímanum 01:11:34. Í kvennaflokki var Hulda Fanný Pálsdóttir fyrst í mark á tímanum 01:27:09. Í tíu kílómetra hlaupinu kom Anna Berglind Pálmadóttir fyrst í mark í kvennaflokki á tímanum 38:30, en Stefán Smári Kárason kom fyrstur í mark í karlaflokki á tímanum 33:16. Logi Ingimarsson var svo allra karla sneggstur í fimm kílómetra hlaupinu á tímanum 15:52. Kai Sharbono frá Bandaríkjunum var sneggst kvenna, á tímanum 19:04. Boðið var upp á keppni í kváraflokki í öllum vegalengdum, en ekki náðist fjöldi til keppni.

SUNDLAUGAPARTÝ AÐ LOKNU HLAUPI

Að hlaupi loknu gæddu þreyttir en glaðir þátttakendur sér á hressingu áður en haldið var í sundlaugapartý í Laugardalslaug. Við þökkum þátttakendum kærlega fyrir og hlökkum til að sjá sem flest aftur á næta ári.

Styrktaraðilar