Andrea og Arnar sigruðu í Ármannshlaupinu

5. júlí 2018

Fjórða Powerade Sumarhlaupið af fimm, Ármannshlaup Eimskips, fór fram í gærkvöldi. Hlaupið hófst og endaði við höfuðstöðvar Eimskipa við Sundahöfn og voru 343 hlauparar skráðir til þáttöku. Hlaupaleiðin er 10 km og liggur meðfram Sæbrautinni niður að Hörpu en þar snúa keppendur við og hlaupa sömu leið til baka. Brautin er mjög flöt og aðeins munar 6,7 metrum á hæsta og lægsta punkti og því hafa margir hlauparar náð sínum besta tíma í 10 kílómetra hlaupi þar.

Arnar Pétursson var fyrstur karla í mark og Andrea Kolbeinsdóttir var fyrst kvenna. Arnar kom í mark á 34 mínútum og 17 sekúndum. Í öðru sæti í karlaflokki á tímunum 34:20 var Vilhjálmur Þór Svansson og Maxime Sauvageon í því þriðja á 34:28. Tími Andreu var 35 mínútur og 45 sekúndur sem er besti tími sem hún hefur náð í 10 kílómetra hlaupi. Aðeins fimm karlar komu á undan Andreu í mark í hlaupinu. Í öðru sæti í kvennaflokki var Elín Edda Sigurðardóttir á 36:24 og í þriðja sæti Helga Guðný Elíasdóttir á 38:44.

Heildarúrslit hlaupsins má finna á timataka.net og myndir á flickr síðu Ármenninga.

Styrktaraðilar